GUMMI Í JAPAN :: グッミは日本にいるよ

laugardagur, desember 17, 2005

Hættur

Já það hlaut að koma að því, lokafærslan. "An entry 4 million years in the making...." /trailerrödd. Meira svona eins og fjórir mánuðir reyndar, þó fólki beri ekki saman um það.

Jáh, þessi api er hættur í bili, ég þakka öllum lesturinn og vona að þið hafið haft gaman af. Við sjáumst svo öll á nýju bloggi ef það verður einhvern tíman.

Munið svo að elska Jesú um jólin, eigið gleðileg jól öllsömul!

Lokafærsla, lokalag: High Contrast - High Society (feat. MC Dynamite)

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Tittur

Já haldiði ekki að stelpur séu farnar að taka myndir af stráknum úr öðrum bílum og elta hann með myndavélina á lofti, papparazzi style. Ég skal segja ykkur það.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

2005 A.D.

Síðan ég hef komið heim má lýsa samskiptum mínum við fólk á þessa leið:

"Hæææ ka segirru gott, var ekki rosa gaman í Japan?"
"Jú það var mjö.."
"Floooooott, gott að heyra."


Svo spyr fólk mig yfirleitt um einhverja japanska stereótýpu sem það sér alltaf í kvikmyndum eða eitthvað svona myth sem hefur myndast (skiljanlega) hjá vestrænu fólki. Yfirleitt verð ég að svara því neikvætt og mér hefur sýnst á mörgu fólki að það vilji eiginlega ekki að þessi ímynd sem það hefur sé brotin niður. Horfir á mig með vantrú og vonbrigðum þegar ég segi þeim að flest íbúðarhús í Japan séu mjög ljót, að flestur algengur sér japanskur matur sé frekar vondur og subbulegur (katsu, uuuuugh) eða annað þvíumlíkt og finnst mér stundum eins og það haldi að ég hafi nú bara ekki kynnt mér þessi mál alveg til hlýtar. Þetta á þó alls ekki alltaf við og ef til vill einhver ímyndun af minni hálfu þó mér finnist ég sjá þessi viðbrögð frekar oft.

Japan er sterkt í ímyndunaraflinu hjá vesturlandabúum og halda margir að allir þar búi í viðarhúsum með rennihurðum með zen görðum fyrir utan og borði sushi í öll mál. Ég fór reyndar í áfanga í Kansai Gaidai sem fjallaði um það hvernig vesturlandabúi eins og ég sjálfur gæti túlkað Japan fyrir löndum mínum því óhjákvæmilega yrði kallað á mig til að útskýra þetta framandi land og þjóð fyrir fólki sem þyrstir í fróðleik um fjarlæg lönd. Hann var mjög fróðlegur og tókst að einvherju leyti að brjóta niður stereótýpur sem maður kann að hafa um Japan og reyna frekar að sjá hvað sé líkt með okkar menningu frekar en að sjá hvað er öðruvísi, þó auðvitað þykir manni áhugaverðast að heyra um muninn en ekki um það sem við eigum sameiginlegt.

Einnig var farið mikið í seinni heimsstyrjöldina og þá sérstaklega í samskipti Japans og Bandaríkjanna og stríðsáróðri úr báðum áttum. Mér finnst nú alveg merkilegt hvað lítið er farið í seinni heimsstyrjöldina í sögu í skólum á Íslandi og á það bæði við um grunnskóla og menntaskóla, og þá sérstaklega Japan því ég minnist þess ekki það sé talað um það einu orði fyrir utan Hiroshima og Nagasaki og Pearl Harbour. Ég var því nokkuð hissa að heyra í fyrsta skipti um styrjöldina um Okinawa þar sem yfir 250.000 Japanir létu lífið og einnig um umfang eldsprenginga Bandaríkjamanna á Japan sem brenndi næstum 69 borgir til grunna og drápu að minnsta kosti einu sinni yfir 100.000 manns á einu kvöldi og skeytti þar engu um hvort um hernaðarleg skotmörk var að ræða eða ekki. Ekki nóg með það heldur voru þeir algjörlega crushed áður en kjarnorkusprengjunum var varpað og búnir að gefast upp, en Bandaríkin voru ekki að taka það gilt því Japan vildi ekki gefast upp skilyrðislaust vegna þess að þeir voru hræddir um að keisarinn yrði tekinn af lífi.

Fengum líka að sjá kannanir hjá fólki í Bandaríkjunum sem voru teknar um þetta leyti og næstu 10 ár á eftir í bandaríkjunum og þar var meirihluti fólks sem fannst að Bandaríkin hefðu átt að varpa fleiri kjarnorkusprengjum á Japan og önnur þar sem einnig meirihluti fólks var tilbúið að styðja "total extermination" á Japönum í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta hefði aldrei verið hægt með Þjóðverja enda voru þeir hvítir og alltaf álitnir flestir vera "fórnarlömb" nasista. Allur áróður gegn Japan miðaði líka við að gera Japani sub-human í augum almennings og er líklega ein aðalástæðan fyrir þessum hugsunargangi á þessum tíma.

mánudagur, júlí 11, 2005

Sin City

Fór á þessa mynd eftir miðnætti á laugardeginum og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þið sem eigið eftir að sjá hana, farið út í bíó, NÚNA. Alveg bókað að ég fer á þessa aftur í bíó og auðvitað er þetta skyldueign á DVD.
Greinilegt að það var alvöru fólk sem stóð á bakvið þessa mynd og það hjálpaði eflaust mjög að hafa Frank Miller sjálfan með puttana í þessu þó Rodriguez geti oft verið góður. Svo mæli ég auðvitað með öðrum stórgóðum teiknimyndasögum eftir Frank Miller eins og til dæmis Dark Knight Returns sem sem er saga um Batman (og örugglega ein frægasta bókin eftir Frank Miller).

laugardagur, júlí 02, 2005

Japanesy

Vaknaði um miðja nótt eftir tæplega þriggja tíma svefn núna um daginn. Var ég þá mjög blóðlaus í öðrum handleggnum (ekki óalgengt svosem fyrir mig þarsem ég sef alltaf á maganum) en ég var líka sérstaklega aumur í honum og fannst eins og það hefði verið snúið upp á hann. Nú á sama augnabliki mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði lofað að hjálpa kennaranum mínum að flytja daginn eftir því ég var gjörsamlega búinn að steingleyma því. Fór strax og gáði að háskóla e-mailinu mínu (nota það aldrei) og þar stóð að hún hefði ætlað sér að flýta flutningnum um einn dag... Ég fór að hafa miklar áhyggjur af þessu þar sem ég vissi að hún var mikið að treysta á mig í þessum flutningi og hafð ég boðist til að fá lánaðan stóra bílinn hennar mömmu og Kidda og ég veit ekki hvað. Hafði svo miklar áhyggjur af þessu að ég gat hreinlega ekkert sofnað aftur. Þar sem ég hafði ekki heimasíma eða neitt hjá henni keyrði ég svo heim til hennar þegar skikkanlegur tími dags var kominn og baðst innilega afsökunar á þessu.

Ég náði þó að hjálpa eitthvað og var mér svo boðið upp á kariraisu með kjúkling eftir á með Umezawa-sensei (kennaranum mínum gamla) og japanskri vinkonu hennar sem var líka að hjálpa. Þær töluðu nánast bara japönsku og meðal annars spurðu mig spjörunum úr um gamla bekkjarfélaga og náði ég sæmilega að klóra mig í gegnum þetta þó stundum yrði ég bara að svissa yfir á enskuna.

Nú um síðustu helgi fór ég svo í brúðkaupsveislu hjá honum Magga kallinum, fyrrverandi bekkjarfélaga og stjórnarmeðlimi í japönnskunni en hann var að giftast japanskri stelpu og er að fara að flytja þangað. Það var frekar skemmtilegt, talaði aðeins við brúðina, Naoko-san, sem og foreldra hennar sem vakti mikla lukku. Pabbi hennar er kennari í Niimi og trúðu þau því ekki þegar ég sagðist hafa komið í þann smábæ. Annars þekkti ég eiginlega engan þarna en var í mjög góðum félagsskap gamalla bekkjarbræðra úr japönskunni, Helga, Davíðs og Svans. Svo var farið niður í bæ eftir á og stiginn rigningardans.

sunnudagur, júní 19, 2005

Blautur sunnudagur

Meiri rigningin í dag, hellirigning alveg. Gott að ég þurfi ekki einu sinni að fara út úr húsi þá til að mæta í vinnuna ;)

Hvorki komið net- né símasamband í íbúðina. Greinilegt að fólkið sem vinnur hjá Reiknistofnun Háskólans er ekki beint að stökkva á þessar netumsóknir. Eina sem þeir þurfa að gera er að bæta MAC addressunni minni inn á kerfið hjá sér..sigh

Sat í vinnunni um daginn í mestu makindum þegar frekar skuggalegur (dópistalegur) náungi labbaði inn. Hann vatt sér upp að lyftunni og ýtti á takkann. Lyftan kom ekki eftir 10-20 sekúndur svo hann ákvað að gefa henni smá 'peace of his mind'....."OOOOOH OPNASTU HELVÍTIS DJÖFULL!....helvítis andskotans djöfulsins!" Hann brá þá á það ráð að taka stigann en fyrst sagði hann við mig; "Gaur! Láttu laga lyftuna." Ef hann hefði dokað við aðeins lengur þá hefði ég nú bara sagt honum að hún væri í góðu lagi þó hún kæmi ekki nákvæmlega þegar honum þóknaðist. Reyndar skil ég ekki stundum hvernig fólk nennir að taka þessa lyftu héðan af annari hæð, það eru nú bara mesta lagi tvær hæðir að fara sem tekur minni tíma en að bíða eftir að lyftan komi.

Smá auglýsingasamantekt. Hér er ein súrasta auglýsing sem ég hef séð um dagana, tjekkið á þessu:

Hér koma svo tvær japanskar auglýsingar með Kiefer Sutherland í hlutverki hetjunnar Jack Bauer úr þáttunum 24, en þessar voru í gangi í sjónvarpinu meðan ég var í Japan. Ég hef ekki séð þættina en ég ímynda mér að það sé ekki varið nokkrum mínútum í matarát fyrir kallinn einstaka sinnum, svo eitthvað verður maðurinn að borða á þessum 24 klukkustundum.

Á einhvern dásamlegan hátt eru svo ekkert nema skólastelpur í lestinni í þessari auglýsingu, það er ekki amalegt þegar Bauer þarf að kljást við illvirkja í Japan greinilega.

Munið bara að hægri smella og vista ef ykkur langar að eiga þessar auglýsingar. Vil svo vekja athygli á því að ég fer að henda út meirihluta gömlu laganna eftir fáeina daga, svo grípið þau núna ef þið hafið áhuga.